Um Hjartavernd

Hjartavernd, landssamtök voru stofnuð árið 1964. Rannsóknarstöð Hjartaverndar hóf starfsemi sína þremur árum síðar eða árið 1967 með mjög viðtækri faraldsfræðilegri rannsókn, Hóprannsókn Hjartaverndar þar sem áhersla var lögð á að finna helstu áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma meðal Íslendinga. Á árinu 2005 var gerð breyting á rekstrarformi Hjartaverndar og hún gerð að sjálfseignarstofnun (ses).

Rannsóknin hefur staðið yfir í meira en 40 ár og hefur náð til rúmlega þrjátíu þúsund Íslendinga.
Margar nýjar rannsóknir hafa tengst henni.
Þessar rannsóknir hafa orðið grundvöllur þekkingar hérlendis á helstu áhættuþáttum kransæðasjúkdóma. Hjartavernd hefur frá upphafi lagt áherslu á að koma niðurstöðum úr rannsóknum sínum til almennings og heilbrigðisstarfsfólks.

Til að sinna fræðsluhlutverki sínu hefur Hjartavernd staðið að útgáfu ritraðar fræðslubæklinga um áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma, og gefið út Tímarit Hjartaverndar samfellt í 38 ár. Einnig má nefna áhættureiknivél Hjartaverndar þar sem hægt er að reikna út líkur á fá kransæðasjúkdóm á næstu 10 árum.
Nýjasti áfangi í Hóprannsókn Hjartaverndar er Öldrunarrannsókn Hjartaverndar.

Starfsmenn Hjartaverndar eru rúmlega 50. Starfsfólk samanstendur af breiðum hópi fólks með ólíka menntun sem í sameiningu vinnur að því að framkvæma rannsóknir á sem vísindalegastan og áreiðanlegastan hátt.
Í Hjartavernd starfa m.a. læknar, lífeindafræðingar, líffræðingar, tölfræðingur, geislafræðingar, hjúkrunarfræðingar, sjúkraliðar og fólk úr ýmsum öðrum starfsstéttum.
Starfsmenn Hjartaverndar vinna að ýmsum verkefnum, eins og við Öldrunarrannsókn Hjartaverndar, við áhættumat, á rannsóknarstofu Hjartarannsóknar, við myndgreiningardeild, á skrifstofu, við fræðslumál, við úrvinnslu ganga, gæðastjórnun, fjármálastjórnun, ýmis samstarfsverkefni sem Hjartavernd tekur þátt í svo dæmi sé tekið.