Forsíða arrow Fréttir arrow Vísindavaka Rannís 2009 - framlag Hjartaverndar
Vísindavaka Rannís 2009 - framlag Hjartaverndar

Rannís stendur fyrir Vísindavöku – stefnumóti við vísindamenn, föstudaginn 28. september. Vísindavaka er árlegur viðburður þar sem almenningi gefst kostur á að hitta vísindamenn sem stunda rannsóknir í hinum ýmsu vísindagreinum og kynnast viðfangsefnum þeirra. Öll fjölskyldan finnur eitthvað við sitt hæfi á Vísindavöku, en hún er haldin samtímis um alla Evrópu á Degi evrópska vísindamannsins, sem er síðasta föstudag í september. RANNÍS stendur fyrir Vísindavöku á Íslandi. Vísindavaka 2009 verður haldin föstudaginn 25. september í Listasafni Reykjavíkur kl. 17:00-22:00.
Vísindavakan verður haldin í Listasafni Reykjavíkur við Tryggvagötu og stendur frá kl. 17.00-22.00.
Á vökunni verður fróðleikur á hverjum fermetra og kjörið fyrir alla að líta við, bæði unga og aldna og alla þar á milli.

Hjartavernd tekur að venju þátt í vísindavökunni og mun kynna rannsóknir sínar og starfsemi. Þar verður meðal annars kynntur Áhættureiknir Hjartaverndar sem reiknar líkur á hjartasjúkdómi á næstu 10 árum. Einnig verður sérstök kynning á Áhættuþáttakönnun Hjartaverndar sem hlaut Öndvegisstyrk RANNÍS 2009. Þrátt fyrir að mælingar á hefðbundnum áhættuþáttum hafi sannað mikilvægi sitt í forvörnum hjarta- og æðasjúkdóma þá vinnur Hjartavernd stöðugt að því að finna nýja áhættuþætti svo fyrr megi greina einstaklinga í aukinni áhættu og beita forvörnum. Þetta er gert í Áhættuþáttakönnun Hjartaverndar þar sem nýjum mælingum á áhættuþáttum er kerfisbundið bætt við mælingar á hefðbundnum áhættuþáttum. Áhættuþáttakönnunin hófst í ársbyrjun 2006 og í henni taka þátt þúsundir einstaklinga á aldrinum 20-69 ára sem búa á höfuðborgarsvæðinu. Ein af þessum nýju mælingum er ómun af hálsslagæðum. Samband stærðar æðaskella í hálsslagæðum við kransæðastíflu og heilablóðfall er þekkt. Vísbendingar eru um að tengsl samsetningar æðaskella við kransæðastíflu og heilablóðfall séu enn sterkari. Þannig eru æðaskellur samsettar fitu og blóði líklegri til að valda áföllum en æðaskellur samsettar bandvef og kalki. Hjartavernd fékk nýverið Öndvegisstyrk RANNÍS til að kanna frekar samband stærðar og samsetningar æðaskella við áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma. Í þessari rannsókn eru þátttakendur í Áhættuþáttakönnuninni skoðaðir tvisvar með ómun með þrigga ára millibili og æðaskellur hálsæða metnar með tilliti til breytinga í samsetningu og stærð.

Nánar má lesa um Vísindavöku RANNÍS með því að smella hér