Forsíða arrow Fréttir arrow Vísindagrein frá Hjartavernd í The New England Journal of Medicine
Vísindagrein frá Hjartavernd í The New England Journal of Medicine
Hjartavernd birtir vísindagrein um rannsóknir á C-reactive prótein (CRP) sem áhættuþátt fyrir kransæðasjúkdóm.  Rannsóknin er sú stærsta sinnar tegundar og mun hafa afgerandi áhrif um hvernig nota má mælinguna í áhættumati.   

Hjartavernd birtir vísindagrein um rannsóknir á C-reactive prótein (CRP) sem áhættuþátt fyrir kransæðasjúkdóm.  Rannsóknin er sú stærsta sinnar tegundar og mun hafa afgerandi áhrif um hvernig nota má mælinguna í áhættumati. 
Vísindagreinin sem heitir: "C-Reactive Protein and Other Circulating Markers of Inflammation in the Prediction of Coronary Heart Disease" birtist í einu virtasta læknisfræðitímariti í heimi The New England Journal of Medicine og er sérstaklega fjallað um rannsóknina í ritstjórnargrein tímaritsins.

Rannsóknir á áhættuþáttum fyrir kransæðasjúkdóma víða um heim þar á meðal rannsóknir Hjartaverndar hafa sýnt að enn er allt að þriðjungur áhættuþátta kransæðasjúkdóma óskýrður.
Á undanförnum árum hefur komið í ljós að væg en langvarandi bólga hefur reynst áhættuþáttur fyrir hjarta- og æðasjúkdóma.  Meðal annars hafa rannsóknir Hjartaverndar á sökki sem mælikvarða á bólgu bent til þess að það hefði eilítið forspárgildi fyrir kransæðastíflu.  Einn bólgumiðill sem mikið hefur verið til rannsókna að undanförnu er C- reactive protein (CRP) en það prótein hækkar mjög í bráðabólgu.  Í ljós hefur komið að einstaklingar virðast hafa misháan grunnstyrk af þessu próteini í blóði sínu og rannsóknir hafa eindregið bent til þess að þetta pótein sé sjálfstæður áhættuþáttur fyrir hjarta- og æðasjúkdóma. 

Hjartavernd hefur í samvinnu við breska vísindamenn í Cambridge birt vísindagrein sem byggir á niðurstöðum rannsókna Hjartaverndar síðustu 35 ár.  Rannsóknin var gerð á um 2500 einstaklingum sem tóku þátt í rannsókn Hjartaverndar og fengið hafa kransæðastíflu og nærri 4000 einstaklingum sem ekki hafa fengið kransæðastíflu.  Niðurstöðurnar benda eindregið til þess að CRP sé áhættuþáttur fyrir hjarta- og æðasjúkdóma þótt ekki sé viðbótarupplýsingargildið eins mikið og menn hafi haldið fram hingað til. 

Talsverð umræða hefur verið að undanförnu um gildi CRP sem viðbót í heildaráhættumati á einstaklingum m.t.t. kransæðasjúkdóms.  Til eru talsmenn þess að mæla CRP í öllum sem hafa um 10-20% áhættu á að fá kransæðasjúkdóm á næstu 10 árum.  Þessi rannsókn bendir til þess að viðbótarupplýsingar sem fást séu ekki nægjanlegar miklar til að réttlæta mælingu í öllum.  Ljóst er þó að þetta er áhættuþáttur sem vert er að hafa í huga, einkum þegar erfitt er að meta áhættu út frá öðrum þáttum og ákvörðun þarf að taka um meðferð einstaklingsins  Mælingin gæti þess vegna hjálpað talsvert í völdum tilvikum.

Fjallað hefur verið um þessa rannsókn í bandarískum og breskum fréttamiðlum eins og sjá má hér að neðan.

Útvarpsþáttur Value of Heart Disease Test Questioned - Richard Knox í NPR í Boston.

"New study stirs controversy over CRP for CHD risk assessment" The Heart.org

"Potent predictor or not" USA today 
 
"Heart study Challenges Protein´s Predictive Power" The New York Times