Forsa arrow Frttir arrow Uppsagnir hj Hjartavernd
Uppsagnir hj Hjartavernd

Í lok janúar næstkomandi verða 5 ár liðin frá því að Öldrunarrannsókn Hjartaverndar (AGES Reykjavik study) hófst.  Öldrunarrannsóknin er samstarfsverkefni Hjartaverndar og bandarískra heilbrigðisyfirvalda (NIH/NIA) og ein stærsta faraldsfræðilega rannsókn á heimsvísu á heilbrigði öldrunar.  Í dag hafa hátt í sex þúsund einstaklingar tekið þátt í rannsókninni.  Kostnaðarhlutur bandarískra heilbrigðisyfirvalda vegna rannsóknarinnar til þessa dags nemur um $25,3 milljónum en áætlaður heildarkostnaður þeirra eru rúmar $31 milljón.  Við þetta bætist svo framlag Hjartaverndar, m.a. í formi framlags starfsmanna, húsnæðiskostnaðar og annars því tengdu.

Hjartavernd stendur frammi fyrir því að tekjur félagsins hafa dregist saman á liðnum mánuðum og misserum, einkum vegna hinnar gríðarlega óhagstæðu gengisþróunar og kostnaðarhækkana innanlands.  Hjartavernd er með stærstan hluta sinna tekna í erlendum myntum og nánast allan kostnað í krónum.  Hefur þetta m.a. þau áhrif að þeir fjármunir sem áætlað var að nýta til Öldrunarrannsóknarinnar munu ekki nægja.  Þá er jafnframt ljóst af viðræðum við fulltrúa NIH/NIA að stjórn NIA treystir sér ekki til að leggja fram þá auknu fjármuni sem þarf til að ná endum saman.
    
Það liggur því fyrir að hægja verður verulega á Öldrunarrannsókninni sem felur í sér umtalsverða fækkun starfa.  Þá gera áætlanir jafnframt ráð fyrir tilkomu nýs áfanga Öldrunarrannsóknarinnar, en áætlað er að hann hefjist í árslok 2006.  Þar er um að ræða nýtt sex ára rannsóknarverkefni sem byggir á endurkomu sömu þátttakenda.  Samningaumleitanir þar að lútandi hafa staðið yfir við bandarísk heilbrigðisyfirvöld síðan í ársbyrjun 2004 og áætlað að þeim ljúki á komandi mánuðum.

Minnkandi umsvif Öldrunarrannsóknarinnar koma hart niður á fjárhag Hjartaverndar og gera félaginu erfitt fyrir að halda sínu vel þjálfaða og hæfa starfsfólki.  Í október síðastliðnum störfuðu 72 einstaklingar í 54 stöðugildum hjá Hjartavernd ses og KLH ehf, þar af 57 einstaklingar í 43 stöðugildum við Öldrunarrannsóknina. 
Í ljósi framangreinds var á starfsmannafundi nú í morgun tilkynnt uppsögn 35 starfsmanna, sem tekur gildi 1. desember 2005 miðað við samningsbundinn 3ja mánaða uppsagnarfrest.  Þess er vænst að starfsmenn vinni út sinn uppsagnarfrest og láti af störfum 28. febrúar 2006.
Hjartavernd ses og KLH ehf þykir miður að þurfa að grípa til þessara aðgerða en hjá þeim varð ekki komist í ljósi ytri aðstæðna.  Eftir þessar aðgerðir munu um 38 einstaklingar starfa hjá Hjartavernd ses og KLH ehf í um 33 stöðugildum við margvíslegar rannsóknir.  
Allar frekari upplýsingar veitir forstöðulæknir, Vilmundur Guðnason í síma 535-1806.