Forsíða arrow Fréttir arrow Tóbaksvarnir í Evrópu - tóbakslausi dagurinn 31. maí
Tóbaksvarnir í Evrópu - tóbakslausi dagurinn 31. maí
Föstudaginn 31. maí var haldinn tóbakslausi dagurinn. Þó verulega hafi dregið úr tóbaksnotkun á síðustu árum þá er tóbak samt sem áður stærsti valdur ótímabærra dauðsfalla Evrópubúa og er hægt er að skrifa nærri 700 þúsund ótímabær dauðsföll á reikning tóbaksins. Um það bil 50% reykingamanna deyr fyrir aldur fram og munar þar 14 árum að meðaltali. Þar fyrir utan eru lífsgæði reykingamanna mun verri og heilsa þeirra oftar slæm. Samkvæmt tölum frá Landlækni hefur verulegur árangur náðst í baráttunni við tóbakið og reykingar eru hér hvað minnstar í Evrópu. Á árinu 2012 reyktu daglega um 14% landsmanna á aldrinum 15-89% sem er veruleg lækkun frá árinu 1991. Þá reyktu um 30% landsmanna á þessum aldri. Á árinu 2010 létust á Íslandi tæplega 200 manns vegna reykinga á aldrinum 30-89 skv útreikingum Hjartaverndar. 
Þó góður árangur hafi náðst í baráttunni við tóbakið má ekki slaka á klónni og standa verður vörð um ungdóm landsins. Ísland var með fyrstu löndum sem settu heilsuviðvaranir á tóbaksvörur árið 1969 og hefur alla tíð staðið framarlega í tóbaksvörnum með fræðslu, löggjöf og banni. Ísland var með fyrstu löndum sem bannaði reykingar á opinberum stöðum árið 2007 en það var svo árið 2009 sem framkvæmdastjórn Evrópusambandsins beindi tilmælum til aðildarríkja sinna að þau tryggðu þegnum sínum reyklaust umhverfi. Í febrúar s.l. gaf Framkvæmdastjórnin út skýrslu þar sem staðan var vegin og metin innan einstakra landa og í heildina. Helstu niðurstöður skýrslunnar eru að bann við reykingum hefur haft jákvæð áhrif á heilsu og heill almennings og komu áhrifin nær strax fram með lækkun tíðni hjartaáfalla í löndunum auk jákvæðra heilsufarsáhrifa á öndunarfæri fólks. Samkvæmt skýrslunni hafa öll lönd innan ESB bannað reykingar á opinberum stöðum að einhverju leyti. Þó er mismunandi milli landa hve langt er gengið og svo virðist sem ekki gangi nægilega vel að framfylgja banninu í sumum löndum. Það á helst við þau lönd þar sem löggjöfin er flókin og margar unanþágur frá banninu. Einna best hefur tekist til í Belgíu, Spáni og Póllandi að búa til heildstæða löggjöf auk þess góður árangur hefur náðst í því að draga úr óbeinum reykingum.Mælingar sýna að færri anda að sér reyk vegna óbeinna reykinga á krám og öldurhúsum. Þannig urðu 28% íbúa landanna fyrir óbeinum áhrifum af tóbaksreyk á árinu 2012 á börum og krám á móti 46% árið 2009. Þó sveiflast hér tölur töluvert eftir löndum.Reykingabannið hefur ekki haft neikvæð á tekjur öldurhúsa og veitingastaða eins og óttast var og hafa efnahagsleg áhrif bannsins verið takmörkuð, engin eða jafnvel jákvæð samvkæmt skýrslunni. Víðtækur stuðningur almennings er við reykingabann innan Evrópu samkvæmt könnun sem gerð var 2009 auk þess sem kannanir einstakra landa hafa einnig sýnt þann stuðning. Hins vegar telur framkvæmdastjórn Evrópusambandins að enn verði of margir fyrir áhrifum óbeinna reykinga og hvetur heilbrigðisráðherra ESB, Tonio Borg, aðildarríkin til að sofna ekki á verðinum því enn sé langur vegur frá því að Evrópa geti talist vera reyklaus. Efla þarf tóbaksvarnir enn frekar með markvissri lagasetningu, hrósa þeim sem hafa staðið sig vel í því að setja lög um reykleysi en ekki síst að hvetja þau þau ríki til dáða sem enn hafa ekki sett markviss lög um tóbaksvarnir. Nánar er hægt að kynna sér skýrsluna með því að fara hér.

704_tobacco-pr.gif
Það er ánægjulegt að segja frá því að í vikunni ákvað ríkisstjórn Írlands að leggja fram frumvarp til laga eigi síðar en í haust um merkingar á tóbaki. Samkvæmt nýju lögunum munu einungis einfaldar umbúðir tóbaks verða leyfilegar (plain packaging) og ekki verður leyft að gera umbúðirnar aðlaðandi með litum, vörumerki framleiðanda eða öðru því sem höfðar sérstaklega til barna. Rannsóknir hafa sýnt að bæði börn og fullorðnir telja tóbak í einföldum umbúðum minna heillandi og aðlaðandi og lélegra að gæðum en tóbak í umbúðum einsog við þekkjum í dag. Þegar börn eru spurð þá telja þau að litur á sígarettupökkum, stafagerð og lögun umbúðanna og sígaretta standa fyrir persónueinkenni og félagslega stöðu þeirra sem reykja. Sambærileg lög um umbúðir tóbaks eru nú þegar í gildi í Ástralíu. Það verður forvitnilegt að sjá hvernig frumvarpinu reiðir af innan þingsins en talið er víst að hagsmunaðilar innan tóbaksiðnaðarins muni berjast gegn því með öllum mögulegum ráðum. Írsku hjartaverndarsamtökin (Irish heart foundation) og Krabbameinsfélag Írlands (The Irish cancer society) hafa lýst yfir stuðningi við frumvarpið. 
Það er að mörgu að hyggja og mikil gerjun í gangi í tóbaksvörnum. Innan ESB eru tóbaksvarnarlögin í endurskoðun og hafa samtök sem vinna á sviði lýðheilsu og langvinnra sjúkdóma innan Evrópu hvatt forseta framvkæmdastjórnar Evrópusambandins, José-Manuel Barroso,að hraða þeirri vinnu með því að birta opið bréf til hans þann 14. maí. Nánar má kynna sér efni bréfsins hér