ForsÝ­a arrow FrÚttir arrow TÝmamˇtauppg÷tvun ß breytingu ß erf­amengi mannsins me­ hŠkkandi aldri
TÝmamˇtauppg÷tvun ß breytingu ß erf­amengi mannsins me­ hŠkkandi aldri

Tímamótauppgötvun á breytingu á erfðamengi mannsins með hækkandi aldri. Er komin skýring á aukningu á sjúkdómum síðar á lífsleiðinni?

Uppgötvun vísindamanna hjá Rannsóknarstöð Hjartaverndar og við Johns Hopkins háskólann í Bandaríkjunum um breytingar á erfðamengi mannsins með aldri vekja vonir um betri skilning á tilurð flókinna síðkominna sjúkdóma eins og hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki og krabbameina. Þessi uppgötvun getur hugsanlega skýrt hvers vegna sumir fá sjúkdóma en aðrir ekki og getur mögulega skýrt þróun flókinna sjúkdóma hjá fólki og þannig skipt sköpum fyrir læknisfræði morgundagsins.

Vísindagrein um rannsóknina birtist í nýjasta hefti vísindatímaritsin Journal of the American Medical Association (JAMA).
 
Þessi rannsókn "Utangenamerki breytast með aldri á fjölskyldubundinn hátt”, hefur vakið verðskuldaða athygli á alþjóðlegum vettvangi og verið fjallað um hana í helstu vísindatímaritum eins og Nature og Science auk þess hefur fjölda vísindavefja og dagblaða fjallað um hana eins og sést á meðfylgjandi slóðum af netsíðum.

 
Utangenamerki eru upplýsingar sem tengjast erfðaefninu (DNA) og erfast án þess að vera hluti af DNA röðinni sjálfri. Þessi utangenamerki taka þátt í stjórnun á genum í erfðamengi mannsins. Breytingar á þessum merkjum geta því haft áhrif á tilurð og þróun sjúkdóma. Rannsókn á rúmlega 100 þátttakendum í Öldrunarrannsókn Hjartaverndar sýndi að hjá þriðjungi þeirra var mælanleg breyting á utangenamerkjum. Þessi uppgötvun var sannreynd í rannsóknarþýði í Utah í Bandaríkjunum þar sem einnig komu fram sterkar vísbendingar um að tegund breytinganna lægi í ættum. Þetta er fyrsta rannsóknin í heiminum sem sýnir fram á þetta. Vitað er að breytingar á utangengamerkjum hafa verið tengdar sjúkdómum eins og krabbameini. Það að breyting á þessum utangenamerkjum sé hluti af öldrun vekur vonir um betri skilning á sjúkdómum sem fyrst og fremst koma fram þegar fólk eldist. Þessi uppgötvun gæti einnig skýrt hvers vegna sumir eru útsettir fyrir því að fá sjúkóma eins og hjartasjúkdóma meðan aðrir sleppa. Hér er því um tímamótauppgötvun að ræða sem vakið hefur verðskuldaða athygli innan og utan vísindaheimsins.

Hægt er að smella hér til að sjá nánar um þessa merku rannsókn

Einnig er hægt að skoða umfjöllun um rannsóknina hér