Forsíða arrow Fréttir arrow Tengsl finnast milli mígreni með áru á miðjum aldri og vefjabreytinga í litla heila á efri árum
Tengsl finnast milli mígreni með áru á miðjum aldri og vefjabreytinga í litla heila á efri árum
Hjartavernd hefur í samvinnu við samstarfsaðila frá Öldrunarstofnunar bandarísku heilbrigðisstofnunarinnar (National Institutes of Aging) og Uniformed Services University of the Health Sciences í BNA sýnt að konur sem þjást af mígreni höfuðverkjum á miðjum aldri ásamt áru (sjóntruflunum, svima og dofa sem eru undanfari mígrenikasts) eru líklegri til að hafa vefja¬breytingar í litla heila (cerebellum) á efri árum. Vísindamennirnir fundu að margir hafa þessa tegund ógreindra vefjabreytinga í litla heila en lítið er vitað um áhrif þeirra á líkamlega og vitræna færni á efri árum.

Þessar niðurstöður voru kynntar í nýjasta hefti hins virta læknisfræðitímarits Journal of the American Medical Association (JAMA) þann 24. júní síðastliðinn og byggjast á Öldrunarrannsókn Hjartaverndar og Hóprannsókn Hjartaverndar á Reykjavíkursvæðinu. Helstu niðurstöður voru að konur eru útsettari en karlar fyrir staðbundnum vefjabreytingum í litla heila greindum með segulómun (MRI) og að konur sem sögðust hafa mígreni með áru voru nærri tvisvar sinnum líklegri til að hafa slíkar vefjabreytingar í litla heila en konur sem ekki kvarta yfir höfuðverk.

Mígreni þjáir um það bil 11% fullorðinna og 5% barna í heiminum og er algengari í konum en körlum. Mígreni fylgir oft aukin viðkvæmni fyrir ljósi og hljóði, flökurleiki og uppköst. Sumir mígrenisjúklingar finna ákveðin einkenni frá taugakerfi – árueinkenni, sem lýsa sér sem tímabundin sjóntruflun sem getur komið fram sem ljós glampar innan sjónsviðs, sikksakk línur í sjónsviði eða sem skert sjón.
 
Þátttakendur í rannsókninni voru spurðir um tíðni og einkenni höfuðverkja á árunum milli 1972 og 1986 þegar þeir voru miðaldra (meðaldur 50,9). Segulómun af heila var framkvæmd á 4600 þátttakendum milli áranna 2002 og 2006 þegar meðalaldur þátttakenda var 76,2 ár.
 Rannsóknin leiddi í ljós að meðaltali voru 17% kvennanna greindar með mígreni og þar af voru 10,3% þeirra með áru en einungis 5,7% karlanna voru greindir með mígreni.
 
Tíðni vefjabreytinga í litla heila í konum með mígreni með áru var nær helmingi algengari hjá konum sem ekki höfðu kvartað yfir höfuðverk. Ekki sást marktækur munur hjá körlum.
 
Þessi langtímarannsókn sem byggir á almennu þýði bendir á mikilvægi þess að kanna hvort mígreni gæti verið áhættuþáttur vefjabreytinga í heila sem myndi hafa læknisfræðilegar afleiðingar seinna meir á ævinni.  Um þessar mundir er verið að rannsaka hvað læknisfræðilegar afleiðingar þessar vefjabreytingar í heilanum hafa.  Einnig er mikilvægt að vita hvort um orsakasamband sé að ræða eða hvort einhverjir aðrir þættir séu ábyrgir fyrir þessu sambandi milli mígreni og vefjabreytinga.  Svipaðar breytingar hafa einnig sést í annari mun minni rannsókn á yngra fólki þar sem svipaðri aðferðafræði var beitt.

Rannsakendur leggja áherslu á að þótt tengsl hafi fundist í konum á milli mígrenis og vefjabreytinga í litla heila seinna á ævinni er ekkert vitað hvort þær hafa einhverja þýðingu fyrir færni einstaklingsins. Litli heili er staðsettur aftan og neðan við heilann og starfsemi hans hefur meðal annars með hreyfingu, jafnvægi og vitræna þætti að gera.

Rannsóknin er styrkt af Öldrunarstofnunar bandaríku heilbrigðisstofnunarinnar, Hjartavernd og með stuðningi frá Alþingi Íslands.