ForsÝ­a arrow FrÚttir arrow Tengsl milli gßttatifs, minnka­s heilar˙mmßls og minnissker­ingar.
Tengsl milli gßttatifs, minnka­s heilar˙mmßls og minnissker­ingar.
14/03/13 
 
Ný íslensk rannsókn sýnir tengsl á milli gáttatifs, minnkaðs heilarúmmáls og minnisskerðingar.
Vísindamenn Landspítala Háskólasjúkrahúss og Rannsóknarstöðvar Hjartaverndar birtu nýlega merka vísindagrein sem leiðir í ljós að tengsl eru á milli hjartasjúkdómsins gáttatifs, minnkaðs heilarúmmáls og minnisskerðingar. Greinin birtist í vísindatímaritinu Stroke.  Rannsóknin sýnir að þessi merku tengsl eru óháð því hvort viðkomandi hafi fengið heilablóðfall með heiladrepi. Í rannsókninni var sérstaklega skoðað sambandið milli gáttatifs, heilastarfsemi og vefrænnar uppbyggingu heilans í eldri einstaklingum.
Gáttatif er hjartsláttartruflun sem stafar af truflunum á rafboðum frá efri hólfum hjartans. Þessi sjúkdómur er sjaldgæfur hjá fólki undir fimmtugu en verður sífellt algengari með hækkandi aldri. Sjúkdómurinn getur haft í för með sér veruleg einkenni svo sem hjartsláttaróþægindi, þreytu, úthaldsskerðingu og mæði. Alvarlegasti fylgikvilli gáttatifs er heilablóðfall. Um það bil þriðjungur heilablóðfalla kunna að tengjast gáttatifi. Gríðarlegur kostnaður fylgir þessum sjúkdómi, bæði vegna innlagna á sjúkrahús og kostnaðar á lyfjum, en áætlað er að rúmlega 1% kostnaðar í heilbrigðiskerfum vestrænna þjóða sé tilkominn vegna gáttatifs og fylgikvilla þess.
Í þessari rannsókn voru skoðaðir 4251 þátttakendur í Öldrunarannsókn Hjartaverndar. Meðalaldur þeirra var 76 ár. Af þessum hópi reyndust 330 hafa gáttatif. Til að meta rúmmál heilans var notuð segulómtækni. Vitræn geta var metin út frá niðurstöðum yfirgripsmikilla vitrænna verkefna sem allir þátttakendur í rannsókninni tóku þátt í.
Eins og fyrr segir, leiddi rannsóknin í ljós að þátttakendur með gáttatif höfðu minni heilavef í samanburði við þá sem ekki höfðu gáttatif. Sambandið var sterkara eftir því sem byrði  hjartsláttaróreglunar var meiri og því lengra sem liðið var frá því að gáttatif greindist fyrst. Tengsl fundust einnig við skert minni. Gáttartif hefur því neikvæð áhrif á heilastarfsemi óháð heilablóðföllum. Þessum tengslum gáttatifs og heilarýrnunar, sem svarar til u.þ.b. eins og hálfs árs öldrunar heilans, hefur ekki verið lýst áður. Hægt er að nálgast abstrakt greinarinnar hér .
Þessar niðurstöður eru mjög athyglisverðar ekki síst í ljósi þess að önnur íslensk rannsókn eftir sömu höfunda sem birt var árið 2011 spáir líklegum faraldri gáttatifs á komandi áratugum. Nánar má lesa um þá rannsókn með því að smella hér.
 
 
Frekari upplýsingar veita:
Davíð O. Arnar hjartasérfræðingur ( Ůetta netfang er vari­ fyrir ruslrafpˇsti, ■˙ ■arft a­ hafa Javascript virkt til a­ sko­a ■a­ ), s: 8245704 og 
Vilmundur Guðnason prófessor og forstöðulæknir Hjartaverndar ( Ůetta netfang er vari­ fyrir ruslrafpˇsti, ■˙ ■arft a­ hafa Javascript virkt til a­ sko­a ■a­ ) s: 8617144