ForsÝ­a arrow FrÚttir arrow NŠring og v÷xtur snemma ß lÝfslei­inni
NŠring og v÷xtur snemma ß lÝfslei­inni
Næring og vöxtur snemma á lífsleiðinni – þáttur í forvörnum hjarta- og æðasjúkdóma
- Tengsl milli fæðingarstærðar, vaxtar og næringar snemma
 á lífsleiðinni og áhættuþátta hjarta- og æðasjúkdóma -


Næring og vöxtur snemma á lífsleiðinni –
þáttur í  forvörnum hjarta- og æðasjúkdóma
- Tengsl milli fæðingarstærðar, vaxtar og næringar snemma
á lífsleiðinni og áhættuþátta hjarta- og æðasjúkdóma -


Doktorsvörn í næringarfræði frá raunvísindadeild Háskóla Íslands
17. október 2003 kl:10:00 í Hátíðarsal Háskóla Íslands, aðalbyggingu.

Doktorsefni: Ingibjörg Gunnarsdóttir (f.1974), stúdent frá Framhaldsskólanum á Húsavík 1993, BSc í matvælafræði frá Háskóla Íslands 1997, MSc í næringarfræði frá Háskóla Íslands 1999. Unnið að rannsóknum í næringarfræði við rannsóknarstofu í næringarfræði við Landspítala-háskólasjúkrahús og matvælafræðiskor raunvísindadeildar Háskóla Íslands frá árinu 1999.

Leiðbeinandi: Inga Þórsdóttir prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands.

Doktorsnefnd: Inga Þórsdóttir prófessor frá Háskóla Íslands, Dr. Vilmundur Guðnason forstöðulæknir Hjartaverndar og dósent við Háskóla Íslands, Dr. Kristberg Kristbergsson dósent við Háskóla Íslands.

Andmælendur: Dr. Janet Rich-Edwards frá Harvard Medical School í Boston, Bandaríkjunum og Dr. Jóhannes Gíslason rannsókna- og þróunarstjóri hjá líftæknifyrirtækinu Prímex í Reykjavík.

Ritgerðin er byggð á sex greinum þar sem tvær eru birtar og fjórar eru í prentun, allar í ritrýndum vísindatímaritum.


Á síðustu árum hafa vísindamenn áttað sig betur á mikilvægi vaxtar og næringar snemma á lífsleiðinni. Tilgangur ritgerðarinnar var að auka þekkingu á því hvernig vöxtur og næring snemma á lífsleiðinni getur átt þátt í forvörnum gegn hjarta- og æðasjúkdómum. Til að ná settu marki var samband milli fæðingarstærðar og 1) kransæðasjúkdóms, 2) blóðþrýstings og 3) offitu og fitudreifingar á fullorðinsárum rannsakað. Í röð annarra rannsókna voru áhrif vaxtar og næringar á fyrsta aldursári á áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma við 12 mánaða og sex ára aldur rannsökuð.
Upplýsingum um fæðingarþyngd og -lengd Íslendinga sem fæddir voru á árunum 1914-1935 var safnað á Þjóðskjalasafni Íslands. Heilsufarsupplýsingar um þetta fólk á fullorðinsárum voru fengnar úr Hóprannsókn Hjartaverndar. Öfugt samband fannst milli fæðingarstærðar og áhættuþátta hjarta- og æðasjúkdóma, en sambandið hafði aldrei sést í þjóð með eins háa meðalfæðingarþyngd og á Íslandi. Áhrif hæðar og þyngdar á fullorðinsárum voru einnig mikil og líkurnar á sjúkdómum síðar á ævinni mestar hjá þeim sem fæddir voru stuttir eða léttir en urðu hávaxnir eða þungir sem fullorðnir einstaklingar. Rannsóknirnar undirstrika gildi góðrar næringar móður og barns, en benda einnig til þess að heilsusamlegt líferni alla ævi sé sérstaklega mikilvægt fyrir þá einstaklinga sem fæðast léttir eða stuttir.
Í rannsóknum á næringu íslenskra ungbarna og rannsókn á næringu 2ja ára Íslendinga var safnað nákvæmum upplýsingum um fæðingarstærð, vöxt og næringu fyrsta aldursárið. Þessum börnum var fylgt eftir og næring og heilsa þeirra rannsökuð við 6 ára aldurinn. Öfugt samband var milli vaxtar á fyrsta aldursári og kólestrólstyrks í blóði við 12 mánaða aldurinn. Hægari vöxtur barna sem eru á brjósti gæti átt þátt í hærri kólesterólstyrk í blóði brjóstabarna, en nýlegar erlendar rannsóknir benda til þess að hár kólesterólstyrkur í blóði ungbarna geti verndað þau gegn háum kólesterólstyrk í blóði síðar á ævinni. Hlutfallslega hraður vöxtur á fyrsta aldursári var tengdur ofþyngd við sex ára aldurinn. Vitað er að börn sem eru á brjósti vaxa hægar á síðari hluta fyrsta aldursársins en börn sem ekki fá brjóstamjólk. Í rannsóknunum kemur fram að börn sem voru skemur á brjósti en 6 mánuði voru marktækt þyngri miðað við hæð (höfðu hærri líkamsþyngdarstuðul (LÞS), kg/m2) en börn sem voru á brjósti lengur en átta mánuði og var munurinn talsverður. Mikil neysla á próteinum á fyrsta aldursári var einnig tengd hærri LÞS við sex ára aldurinn. Brjóstagjöf og hæfilegt magn próteina í fæði þegar brjóstagjöf minnkar eða hættir eiga líklega mikilvægan þátt í forvörnum gegn ofþyngd og offitu.
Ritgerðin bætir mikilvægum upplýsingum við þekkingu í næringarfræði mannsins hvað varðar forvarnir hjarta- og æðasjúkdóma.


Samstarfsaðilar: Vilmundur Guðnason og Rafn Benediktsson hjá Hjartavernd, Gestur Pálsson á Barnaspítala Hringsins, Landspítala-Háskólasjúkrahúsi og Bryndís Eva Birgisdóttir á Rannsóknastofu í næringarfræði.


Foreldrar: Gunnar Rafn Jónsson, læknir og Steinunn Þórhallsdóttir, kennari
Maki: Ólafur Heimir Guðmundsson nemi í viðskiptafræði við HÍ
Börn: Elías Rafn Ólafsson (f.2000), Gunnar Heimir Ólafsson (f.2002)
Sími Ingibjargar: 543 8416 eða gsm 891 7017   Tölvupóstfang: Ůetta netfang er vari­ fyrir ruslrafpˇsti, ■˙ ■arft a­ hafa Javascript virkt til a­ sko­a ■a­
Sími Ingu: 543 8414 eða farsími 824 5520       Tölvupóstfang: Ůetta netfang er vari­ fyrir ruslrafpˇsti, ■˙ ■arft a­ hafa Javascript virkt til a­ sko­a ■a­