Forsíğa arrow Fréttir arrow Lungnakrabbamein skoğağ
Lungnakrabbamein skoğağ

Niðurstöður úr Hóprannsókn Hjartaverndar m.a. notaðar.
Ættingjar sjúklinga eru í aukinni hættu á að fá lungnakrabbamein, eftir að tekið hefur verið tillit til ættgengi reykinga

Reykjavík 21. desember 2004 – Tímarit bandarísku læknasamtakanna (Journal of the American Medical Association, JAMA) birti grein eftir vísindamenn Íslenskrar erfðagreiningar, sérfræðinga á Landspítala háskólasjúkrahúsi og Hjartavernd þar sem lýst er viðamiklum rannsóknum á ættgengi lungnakrabbameins, sem er það krabbamein sem veldur flestum dauðsföllum í iðnvæddum löndum. Með því að greina upplýsingar úr Krabbameinsskrá Krabbameinsfélags Íslands og setja í samhengi við ættfræðiupplýsingar úr Íslendingabók, var sýnt fram á erfðaþátt í lungnakrabbameini, jafnvel eftir að tekið hefur verið tillit til ættgengi reykinga. Að vissu leyti má því líta á lungnakrabbamein sem sjúkdóm þar sem tiltölulega vel þekktur umhverfisþáttur – reykingar – getur orðið til þess að ákveðinn erfðafræðilegur breytileiki leiði til sjúkdóms.
Greinin ber titilinn “Familial risk of lung carcinoma in the Icelandic population.”

Í rannsókninni voru skoðuð öll greind tilfelli lungakrabbameins á Íslandi frá 1955-2002 og ættlægni þeirra könnuð með hjálp Íslendingabókar, ættfræðigrunns Íslenskrar erfðagreiningar. Niðurstöðurnar sýna að jafnvel systkynabörn lungnakrabbameinssjúklinga eru í tölfræðilega marktækt aukinni hættu á að fá sjúkdóminn. Ættgengið var sérstaklega áberandi þegar skoðuð voru tilfelli lungnakrabbameins sem greindust fyrir 60 ára aldur, sem bendir til þess að erfðaþátturinn sé sterkari þegar sjúkdómurinn kemur snemma fram. Makar sjúklinga voru einnig í aukinni hættu á að fá lungnakrabbamein sem sýnir hversu mikilvægir umhverfisþættir eru í myndun sjúkdómsins.

Reykingar eru langstærsti áhættuþáttur lungnakrabbameins og yfir 90% þeirra sem greinast með lungnakrabbamein reykja. Til að svara þeirri spurningu hvort ættgengi lungnakrabbameins megi skýra að fullu með því að meiri líkur séu á því að ættingjar reykingamanna reyki, notuðu höfundar upplýsingar úr hóprannsókn Hjartaverndar til að meta ættgengi reykinga. Í ljós kom að þrátt fyrir að reykingar séu greinilega ættgengar að vissu marki, nægir það ekki til að skýra aukna áhættu ættingja lungnakrabbameinssjúklinga á að fá lungnakrabbamein.

Niðurstöðurnar benda því til þess að hægt sé að finna erfðafræðilegan breytileika sem tengist auknum líkum á því að reykingamenn fái lungnakrabbamein, sem gæti stuðlað að þróun betri meðferðar- og greiningarúrræða. Í niðurlagi greinarinnar ítreka höfundar mikilvægi reykinga sem áhættuþáttar því þrátt fyrir ættlægni lungnakrabbameins sé löngu vitað að reykingar eru langstærsti áhættuþáttur sjúkdómsins.
Sjá nánar frétt á heimasíðu Íslenskrar erfðagreiningar