ForsÝ­a arrow FrÚttir arrow LÝkur ß faraldri hjartasj˙kdˇmsins gßttatifs
LÝkur ß faraldri hjartasj˙kdˇmsins gßttatifs

Ný íslensk rannsókn spáir líklegum faraldri hjartasjúkdómsins gáttatifs – fyrsta spáin fyrir þróun gáttatifs í Evrópu

Vísindamenn Landspítalans og Hjartaverndar birtu nýlega grein um vaxandi algengi gáttatifs hér á landi og spá um hugsanlegan faraldur sjúkdómsins næstu áratugina. Vísindagreinin sem birtist í vefútgáfu Europace, tímariti European Heart Rhythm Association vakti verðskuldaða athygli og fjallað var um niðustöðurnar í ritstjórnargrein tímaritsins. Hægt er að finna greinina með því að smella hér og ritstjórnargreinina með því að smella hér.

Gáttatif er hjartsláttartruflun sem stafar af truflunum á rafboðum frá efri hólfum hjartans. Þessi sjúkdómur er sjaldgæfur hjá fólki undir fimmtugu en verður sífellt algengari með hækkandi aldri. Sjúkdómurinn getur haft í för með sér veruleg einkenni svo sem hjartsláttaróþægindi, þreytu, úthaldsskerðingu og mæði. Alvarlegasti fylgikvilli gáttatifs er heilablóðfall. Rúmlega 20% heilablóðfalla kunna að tengjast gáttatifi. Gríðarlegur kostnaður fylgir þessum sjúkdómi, bæði vegna innlagna á sjúkrahús og  kostnaðar á lyfjum, en áætlað er að rúmlega 1% kostnaðar í heilbrigðiskerfum vestrænna þjóða sé tilkominn vegna gáttatifs.

Niðurstöður hinnar nýju rannsóknar sýna að algengi gáttatifs á höfuðborgarsvæðinu hefur aukist um fimmtung síðasta áratuginn. Nú þegar hafa um 2% Íslendinga á aldrinum 20 til 99 ára greinst með þennan sjúkdóm og samsvarar það tæplega 4500 manns. Út frá spá Hagstofu Íslands um mannfjölda og lífslíkur á Íslandi má áætla að næstu fjóra áratugina muni fjöldi einstaklinga með gáttatif þrefaldast. Aukningin skýrist að stærstum hluta af fjölgun aldraðra. Þessi spá er fyrsta sinnar tegundar í Evrópu. Í ljósi þess að sjúkdómurinn virðist hegða sér svipað á Íslandi og annars staðar í Evrópu má ætla að niðurstöðurnar séu yfirfæranlegar þangað. Í ritstjórnargreininni velta höfundar hennar því fyrir sér hvort faraldur gáttatifs sé yfirvofandi í hinum vestræna heimi.