ForsÝ­a arrow FrÚttir arrow Konur og hjarta- og Š­asj˙kdˇmar
Konur og hjarta- og Š­asj˙kdˇmar

Alþjóðahjartasamtökin notuðu Valentínusardaginn þann 14. febrúar síðastliðinn til að vekja athygli á hjarta- og æðasjúkdómum meðal kvenna um allan heim. Með því vildu samtökin vekja athygli á að þessir sjúkdómar eru alls ekki eingöngu vandamál karla heldur einnig algengt og alvarlegt vandamál meðal kvenna. Undir þetta vill Hjartavernd á Íslandi taka í tilefni konudagsins þann 19. febrúar.

Hér á Íslandi hefur tíðni kransæðasjúkdóma vissulega lækkað verulega á síðustu 15 árum. Sú lækkun hefur þó orðið heldur minni meðal kvenna en karla og hluti af þeirri skýringu felst væntanlega í því að íslenskir karlar hafa dregið meira úr reykingum en íslenskar konur. Nú er svo komið að jafnmargar miðaldra konur og karlar reykja á Íslandi. Því er fyrirsjáanlegt að reykingatengdir sjúkdómar munu verða jafnalgengir meðal íslenskra kvenna og karla á næstu árum ef svo fer fram sem horfir. Flestir þekkja ógnvænlegar afleiðingar reykinga, svo sem krabbamein og lungnasjúkdóma. Það vill hins vegar oft gleymast að meira en helmingur af dauðsföllum sem tengjast reykingum er vegna hjarta- og æðasjúkdóma, sérstaklega kransæðasjúkdóma, þar sem reykingar eru einn sterkasti áhættuþáttur fyrir þessum sjúkdómum. Konur sem reykja missa verndandi áhrif kvenkynsins gegn þessum sjúkdómum og eru því í sömu áhættu og karlar að fá þennan sjúkdóm. Konur sem reykja einn pakka eða meira af vindlingum á dag hafa þannig margfalda áhættu á að fá kransæðasjúkdóm miðað við konur sem reykja ekki. Hóprannsóknir Hjartaverndar hafa einnig sýnt að stórreykingar stytta ævilíkur bæði karla og kvenna um mörg ár. Jafnframt sýna þessar rannsóknir að það er aldrei of seint að hætta, slíkt skilar sér í bættri heilsu á öllum aldri. Vissulega er þó vert að undirstrika að mikilvægast er fyrir ungt fólk að byrja aldrei á reykingum. Rannsóknir Hjartaverndar hafa einnig sýnt að íslenskar konur virðast eiga erfiðara með að hætta reykingum en karlar, nokkuð sem vert er að benda á í baráttunni gegn reykingum ungra stúlkna.

Nýlega birtist í JAMA, tímariti bandarísku læknasamtakanna, grein um stóra hóprannsókn meðal bandarískra kvenna um áhrif minni fituneyslu á ýmsa sjúkdóma meðal annars hjarta- og æðasjúkdóma og getið var um í íslenskum fjölmiðlum. Sú breyting sem náðist á heildarfituneyslu í hópnum (8%) hafði óveruleg áhrif á heildarkólesteról í blóði þátttakenda og því var ekki að vænta áhrifa á heildartíðni hjarta- og æðasjúkdóma í hópnum eins og raunin varð á. Neysla feitmetis í samanburðarhópnum var mun minni en fyrr á árum í Bandaríkjunum og endurspeglar þær breytingar sem orðið hafa á samsetningu á bandarísku og vestrænu mataræði á síðustu tveimur áratugum og talið er eiga sinn þátt í minnkaðri tíðni hjarta- og æðasjúkdóma í þessum löndum. Þessi rannsókn sýnir þó engan veginn að neysla á mettaðri og ómettaðri dýrafitu í heild sinni skipti ekki máli með tilliti til hjarta- æðasjúkdóma. Höfundar rannsóknarinnar benda vel á þetta í greininni og ítreka einnig að hún náði eingöngu til kvenna. Fyrri rannsóknir, meðal annars hóprannsóknir Hjartaverndar, hafa sýnt að hátt kólesteról í blóði kvenna (sem ákvarðast að stórum hluta af samspili erfða og mataræðis) eykur einkum áhættuna á hjarta- og æðasjúkdómum meðal kvenna sem reykja, hafa sykursýki eða sterka ættarsögu um hjarta- og æðasjúkdóma. Þessum hópi kvenna er því sérstaklega ráðlagt að reykja ekki og gæta heilsunnar á sem flestum sviðum, meðal annars í mataræði.

Skilaboð Hjartaverndar til íslenskra kvenna á þessum konudegi er: ,,Konur sem reykja enn þá gerið allt til að hætta að reykja og komið í veg fyrir að börn ykkar byrji á þessum hættulega leik". Það er ekkert eitt ráð jafnmikilvægt til að halda góðri heilsu og það að reykja ekki.

Gunnar Sigurðsson læknir
Formaður stjórnar Hjartaverndar

Greinin birtist í Morgunblaðinu á konudaginn 19. febrúar 2006