ForsÝ­a arrow FrÚttir arrow ═sland Ý fararbroddi Ý forv÷rnum hjartasj˙kdˇma
═sland Ý fararbroddi Ý forv÷rnum hjartasj˙kdˇma

Föstudaginn 12. nóvember 2010 birtist í veftímaritinu PLoS ONE ný vísindagrein um rannsókn Hjartaverndar á lækkandi dánartíðni vegna hjartasjúkdóma hjá 75 ára og yngri á Íslandi.  

Á tímabilinu 1981 til 2006 lækkaði dánartíðni vegna kransæðasjúkdóma um 80% meðal karla og kvenna  á aldursbilinu 25-74 ára.  Þetta leiddi til 295 færri dauðsfalla árið 2006 en hefðu orðið ef sama dánartíðni væri til staðar og var árið 1981.  Þrír fjórðu hlutar þessarar lækkunar eru vegna hagstæðra breytinga á áhættuþáttum meðal þjóðarinnar (32% vegna lækkunar kólesteróls, 22% vegna minni reykinga, 26% vegna lækkunar á blóðþrýstingi og 5% vegna aukinnar hreyfingar í frítíma). Fjórðungur af þessari lækkun á dánartíðni skýrist af breytingum á meðferð við kransæðasjúkdómi með aðgerðum og lyfjameðferð samanlagt.
Aukning á algengi sykursýki og offitu á tímabilinu hafði neikvæð áhrif og jók dánartíðni kransæðasjúkdóma um samtals 9%. 

Lækkun á heildar kólesteróli hefur verið samhliða minnkandi neyslu á harðri fitu, bæði mettaðrar fitu og trans-fitusýrum meðal þjóðarinnar.  Í rannsókn Hjartaverndar reyndist kólesteról lækkunin skýra fækkun ótímabærra dauðsfölla um 95 á ári. Með nýrri reglugerð landbúnaðarráðherra sem takmarkar notkun transfitusýra í matvælaiðnaði er stigið mikilvægt skref í að draga enn frekar úr daglegri neyslu óhollrar fitu. Vert er að nefna að neysla á trans-fitusýrum á Íslandi hefur þegar minnkað mjög mikið síðustu áratugi, bæði vegna breytinga á samsetningu matvara og vegna breyttra neysluhátta, ekki síst í notkun olíu í stað smjörlíkis við matargerð.  Ísland er fjórða landið í Evrópu sem setur slíka reglugerð og fetar þar í fótspor Dana, Austurríkismanna og Svisslendinga sem áður hafa takmarkað notkun transfitusýra í matvælaiðnaði með góðum árangri

Á síðustu 25 árum hefur þeim sem reykja fækkað um meira en helming á Íslandi. Þessi fækkun skýrir það að á ári hverju deyja 65 færri Íslendingar ótímabært af völdum hjarta- og æðasjúkdóma en hefðu dáið ef reykingar væru jafn algengar og þær voru 1981.  Mikilvægt skref í lýðheilsu var stigið árið 2007 þegar reykingar voru bannaðar á opinberum stöðum á Íslandi.  Á örfáum vikum eftir reykingabannið fækkaði hjartaáföllum um 17-19% bæði hjá reykingamönnum og hjá þeim sem ekki reykja.  Þessi niðurstaða er í fullu samræmi við reynslu annarra þjóða þar sem reykingabann hefur verið lögleitt. Í þessu tilliti er Ísland aftur í fararbroddi í lýðheilsu þar sem fæstar aðrar Evrópuþjóðir hafa innleitt eins víðtækt reykingabann og hér á landi.


Helsta ógn við þann árangur sem náðst hefur á undanförnum árum er sú aukning sem orðin er á offitu og sykursýki meðal þjóðarinnar.  Þessi þróun veldur sérfræðingum Hjartaverndar og hjartalæknum áhyggjum þar sem hún dregur úr þeim árangri sem náðst hefur í baráttunni við ótímabær dauðsföll vegna hjartasjúkdóma. 

Áframhaldandi lækkun á dánartíðni Íslendinga vegna hjarta- og æðasjúkdóma byggist á því að vísindamenn með þekkingu á forvörnum og stjórnvöld hafi áfram sem hingað til gott samstarf um að finna áhrifamestu leiðir til að draga úr ótímabærum dauðsföllum sem hægt er að koma í veg fyrir með einföldum og ódýrum inngripum.

Rannsóknin var byggð á mælingum áhættuþátta í hóprannsóknum Hjartaverndar, skráningu Hjartaverndar á kransæðastíflu og hjartaaðgerðum á Íslandi frá 1981, tölulegum upplýsingum um fjölda látinna vegna hjartasjúkdóma frá Hagstofu og yfirlitstölum um meðferðir við hjartasjúkdómum frá Landspítala.

Hægt er að nálgast greinina með því að smella hér

Titill á ensku:
Analysing the Large Decline in Coronary Heart Disease Mortality in the Icelandic Population Aged 25-74 between the Years 1981 and 2006. 
PLoS ONE 5(11): e13957. doi:10.1371/journal.pone.0013957