ForsÝ­a arrow FrÚttir arrow Hjartadagur 28.september 2003
Hjartadagur 28.september 2003
Hjartadagurinn í ár er tileinkaður konum. Athygli er beint að konum og heilbrigðu hjarta. Kannanir hafa sýnt að konur telja heilsu sinni mest ógnað með brjóstakrabbameini en leiða almennt hugann lítið að hjartasjúkdómum. Staðreyndin er aftur á móti sú að dánarorsök sem rekja má til hjartasjúkdóma og heilablóðfalls meðal kvenna er mun algengari.............

Þema dagsins: Konur fá líka hjartasjúkdóma
Þótt verulega hafi áunnist í fækkun kransæðastíflu fá meira en 1000 Íslendingar kransæðastíflu árlega ef allir eru taldir og eru karlmenn þar í miklum meirihluta.  Gera má ráð fyrir að fjöldi þeirra sem deyja árlega skyndidauða á Íslandi vegna kransæðastíflu sé um 200 manns.  Dánartíðni hefur þó lækkað umtalsvert.  Á hverju ári fara um 500 Íslendingar í kransæðavíkkun og um 150 manns fara í hjáveituaðgerð.  Baráttunni gegn þessum vágesti er því engan veginn lokið.

Alþjóðlegur hjartadagur er haldinn ár hvert síðasta sunnudaginn í september.
Að þessu sinni er athygli beint að konum og heilbrigðu hjarta. Kannanir hafa sýnt að konur telja heilsu sinni mest ógnað með brjóstakrabbameini en leiða almennt hugann lítið að hjartasjúkdómum. Staðreyndin er aftur á móti sú að dánarorsök sem rekja má til hjartasjúkdóma og heilablóðfalls meðal kvenna er mun algengari. Þrátt fyrir að karlar séu í meirihluta þegar kemur að hjarta- og æðasjúkdómum fá konur einnig hjartasjúkdóma. Mynstrið er öðruvísi hjá konum. Þær fá t.d. hjartasjúkdóma síðar á ævinni er karlar.

Árlega deyja 8,5 milljón kvenna vegna hjarta- og æðasjúkdóma í heiminum. Þetta er algengasta dánarorsök kvenna, þar sem þriðjungur allra dauðsfalla kvenna má rekja til hjarta- og æðasjúkdóma 1.Áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma eru margir þess eðlis að hver og einn getur haft verulega áhrif á hættuna á að fá þessa sjúkdóma. Áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma eru sömu fyrir konur og karla en virðast hafa mismikil áhrif.

Nokkrar staðreyndir um konur, hjartasjúkdóma og heilablóðföll.

Fleiri konur en karlar deyja vegna heilablóðfalls. Rannsóknir hafa sýnt að konur fá heilablóðfall síðar á ævinni en virðast fá alvarlegri áföll.  Helsti áhættuþáttur kvenna sem fá heilablóðfall er hækkaður blóðþrýstingur og blóðsegi frá stóru slagæðunum í hálsi eða ósæðarboga. Hjartsláttaróregla, svokallað gáttaflökt, er algengara hjá konum en körlum. Það leiðir stundum til heilablóðfalls þar sem segarek frá hjartanu er orsökin. Áfengismisnotkun virðist hafa meiri áhrif hjá körlum þegar litið er á hættuna á að fá heilablóðfall.

Konur fá hjarta- og æðasjúkdóma síðar á ævinni en karlar. Hugsanlega vegna verndandi áhrifa estrógens fram að tíðarhvörfum. Eftir tíðarhvörf hækkar tíðni hjartasjúkdóma hjá konum.

Reykingar meðal kvenna hækka áhættu á hjartasjúkdómum meira en hjá körlum. Rannsóknir Hjartaverndar hafa leitt í ljós að áhrif reykinga á áhættuna hjá konum eru meiri en hjá körlum. Konur eru því viðkvæmari fyrir reykingum.

Hættan á hjartasjúkdómum og að fá heilablóðfall eykst hjá þeim konum sem reykja og nota jafnframt getnaðarvarnarpilluna.

Kona með hækkaður blóðþrýstingur er í margfalt meiri hættu en kona sem ekki er með hækkaðan blóðþrýsting að fá hjarta- og æðasjúkdóm.

Fullorðinssykursýki er einn af áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma. Áhættan eykst verulega hjá konum sem eru með sykursýki.

Tilgangur með alþjóðlegum hjartadegi er að vekja almenning til umhugsunar um að hugsa vel um hjartað. Áhættuþættir hjarta- og æðasjúkdóma eru margir þess eðlis að hver og einn getur haft veruleg áhrif á að hættuna á að fá þessa sjúkdóma. Konur jafnt sem karlar ættu að huga að heilbrigðu hjarta og láta mæla þekkta áhættuþætti.

Áhættureiknivél Hjartaverndar. Á heimasíðu Hjartaverndar hjarta.is  er búið að setja inn nýja reiknivél sem reiknar út áhættu á að fá kransæðasjúkdóm á næstu 10 árum. Þar geta einstaklingar sett inn sínar eigin mælingarniðurstöður eins og kólesteról í blóði, blóðþrýstingsgildi, hæð og þyngd sem og lífstílsþætti eins og reykingar. Reikningarnir byggja á áhættulíkani sem unnið er útfrá niðurstöðum úr Hóprannsókn Hjartaverndar sem staðið hefur í meir en 35 ár og eru þannig miðaðar við íslenskar aðstæður. Rétt er að benda á að áhættan er byggð á líkum og er engan veginn sjúkdómsgreining  heldur einungis vísbending.  Í þessu reiknilíkani er einnig unnt að skoða hvernig líkurnar breytast með því að breyta áhættuþáttunum eins og að hætta að reykja eða lækka kólesterólið svo dæmi séu tekin.

Markmiðið með þessari reiknivél er að auka vitund fólks um áhættuþætti kransæðasjúkdóms og hvernig hægt er að hafa áhrif á þessa áhættu með breytingu á áhættuþáttunum.

Hjartaheill í Perlunni. Í tilefni af 20 ára afmæli Landsamtaka Hjartasjúklinga standa samtökin fyrir sýningu í Perlunni helgina 26.sept-28.september, Hjartaheill.  Þar verður ýmislegt er lýtur að forvörnum á sviði hjarta-og æðasjúkdóma kynnt. Ýmsar mælingar verða í boði eins og kólesterólmælingar og blóðþrýstingsmælingar. Í  bás Hjartaverndar verður áhættureiknivél á heimasíðu Hjartaverndar kynnt. Sunnudaginn 28.sept, á hjartadaginn sjálfan, verður hin árlega hjartaganga farinn frá Perlunni kl. 14. Hjartavernd hvetur alla til að taka þátt í göngunni og hreyfa sig fyrir hjartað. Þennan dag sem og alla aðra daga.