Forsíða arrow Fréttir arrow Heilsu- og hvatningardagar í Smáralind um helgina
Heilsu- og hvatningardagar í Smáralind um helgina
Hjartavernd tekur þátt í heilsu- og hvatningardögum Íslands á iði, í Vetrargarðinum í Smáralind, helgina 16-17.okt nk. kl.13-17 báða daga. í bás Hjartaverndar verður áhættureiknivél á hjarta.is kynnt auk fræðsluefnis sem Hjartavernd hefur gefið út á undanförnum árum.

Upp úr sófanum og hreyfa sig!

Um næstu helgi 16. og 17.október verða Heilsu- og hvatningardagar Ísland á iði haldnir í Vetrargarðinum í Smáralind.
Fulltrúar ÍSÍ, Lýðheilsustöðvar, Beinverndar, Hjartaverndar, Félags íslenskra sjúkraþjálfara, Íþróttakennarafélags Íslands og  Heilsustofnunar Náttúrulækningafélagsins bjóða ásamt sérfræðingum Lyfju upp á ráðgjöf, fræðsluefni og mælingar alla helgina.
Landsliðsfólk í hinum ýmsu íþróttagreinum sýnir listir sínar og gefur gestum og gangandi tækifæri til að spreyta sig. Í boði verða sýningaratriði og kynning á knattspyrnu, hnefaleikum, handknattleik, körfuknattleik, glímu, golfi, krakkablaki, stafgöngu, dansi, skíðaíþróttinni og borðtennis.
Hápunktur Heilsu- og hvatningardaganna verður á laugardaginn kl. 16 en þá mun Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra opna formlega forritið Heilsufélagann.
Heilsufélaginn
Heilsufélaginn er dagbókarform á vefnum þar sem notandinn getur skráð inn upplýsingar um hreyfingu/æfingar, hvíldarpúls, ummálsmælingar, þyngd og fituhlutfall. Sérstök áhersla er lögð á að viðkomandi geti fylgst með meðal fjölda mínútna í hreyfingu á viku, mánuði og ári. Heilsufélaginn er fyrst og fremst hugsaður sem stuðningur og hvatning til fólks að hreyfa sig í a.m.k. 30 mínútur semflesta daga.
Forritið er hugverk og smíð Tómasar Árna Jónassonar, 19 ára nemanda í Menntaskólanum á Ísafirði. Hann kynnti fyrstu hugmyndir af Heilsufélaganum fyrir ÍSÍ í á síðasta ári og í framhaldinu hafa höfundurinn og ÍSÍ ásamt Gamla Apótekinu (ungmennahús) unnið í sameiningu að frekari þróun forritsins. Heilsufélaginn kemur til með að verða opið öllum landmönnum án endurgjalds á heimasíðu ÍSÍ,http://www.isisport.is/

Setjum heilsuna í forgagn og tökum þátt í Heilsu- og hvatningardögum Ísland á iði í Smáralind um helgina.

Sjá dagskrá