Forsa arrow Frttir arrow GoRed fyrir konur konudaginn Perlunni
GoRed fyrir konur konudaginn Perlunni
Alheimsátakið GoRed fyrir konur stendur nú yfir á Íslandi í fjórða skiptið.  GoRed átakið miðar að því að fræða konur um áhættuþætti og einkenni hjarta- og æða–sjúkdóma og hvernig draga má úr líkum á þessum sjúkdómum. Verndari átaksins hér á landi er Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrum heilbrigðisráðherra. Formaður stjórnar  GoRed  er Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir sérfræðingur í hjartasjúkdómum. Hjartavernd, Hjartaheill og Heilaheill standa saman að GoRed átakinu. 

Konur eru oft ekki meðvitaðar um eigin áhættu og áhættuþætti. Jafnvel þótt konur greinist með kransæðasjúkdóm um 10 árum síðar en karlar, látast jafn margar konur og karlar árlega af völdum hjarta- og æðasjúkdóma. Á árinu 2009 létust 84 konur úr heilaæðasjúkdómi (slag) á Íslandi og 75 karlar.
Samkvæmt rannsóknum Hjartaverndar eykst tíðni áhættuþátta hjá konum eftir 50 ára aldur, og má þar nefna hækkaðan blóðþrýsting, hátt kólesteról, sykursýki og ofþyngd. Jákvætt er að verulega hefur dregið úr reykingum á Íslandi en reykingar eru mjög stór áhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma, ekki síst hjá konum. Með hollu mataræði og reglubundinni hreyfingu má minnka líkurnar á flestum áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma. 
Það eru einungis fáein ár síðan farið var að leggja áherslu á að miðla upplýsingum til kvenna og heilbrigðisfagfólks um hve tíðni hjarta- og æðasjúkdóma er há hjá konum. Mikilvægt er að upplýsa konur um fyrstu einkenni hjarta- og heilaæðasjúkdóma til að geta brugðist skjótt við. Enginn einstaklingur læknast af slíkum sjúkdómi – heldur lærir hann að lifa með honum.

 
Dagskrá: 

11:00 Létt ganga um Öskjuhlíðina.

Tónlist - Kristján Hrannar Pálsson

12:00 - Fundarstjóri Edda Þórarinsdóttir býður gesti velkomna.

Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir, hjartalæknir og formaður GoRed á Íslandi: 
GoRed - af hverju - fyrir hverja.

Jón Steinar Jónsson, heimilislæknir Garðabæ: 
Hreyfing sem meðferð - af hverju og þá hvernig? 

Magnús R. Jónasson, endurhæfingarlæknir Reykjalundi: 
Hjartaendurhæfing - hvers vegna, hvar og hvernig? 

Ingibjörg Pálmadóttir verndari GoRed á Íslandi flytur lokaorð.

Orð og söngur verða flutt á milli atriða

 
Til mikils að vinna, því markmið átaksins er að fræða konur og karla um einkenni hjarta- og æðasjúkdóma en sú þekking getur bjargað mannslífi.

Eftir að skipulagðri dagskrá lýkur munu eftirtaldir kynna starfsemi sína til klukkan 15:00: 
Hjartavernd, Hjartaheill, Heilaheill,  GoRed  fyrir konur, Reykjalundur, HL-stöðin Reykjavík, Grensás, Landspítalinn - göngudeild kransæða- og taugalækninga og hjartaendurhæfing og Embætti landlæknis.
 
Hjartadrottningarnar sýna rauða kjólinn sem þær hafa hannað og prjónað.

Merki samtakanna, rauði kjóllinn til sölu, sem fyrsta skrefið í stofnun rannsóknarsjóðs  GoRed  fyrir konur á Íslandi. Nælan er nú þegar til sölu í apótekum Lyfju víða um land og á höfuðborgarsvæðinu og eins í Apótekinu.

Ekki bíða til morguns – hugsaðu um hjartað þitt í dag!
www.gored.is