ForsÝ­a arrow FrÚttir arrow GoRed 2016
GoRed 2016

GoRed 2016

Hjarta- og æðasjúkdómar eru ein algengasta dánarorsök kvenna á Íslandi líkt og annarsstaðar í heiminum. Með forvörnum má draga verulega úr líkunum á þessum sjúkdómum. Samkvæmt rannsóknum Hjartaverndar eykst tíðni áhættuþátta hjá konum eftir 50 ára aldur, og má þar nefna hækkaðan blóðþrýsting, hátt kólesteról, sykursýki og ofþyngd. Jákvætt er að verulega hefur dregið úr reykingum á Íslandi en reykingar eru mjög stór áhættuþáttur hjarta- og æðasjúkdóma, ekki síst hjá konum. Með hollu mataræði og reglubundinni hreyfingu má draga úr flestum áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma. Það eru einungis fáein ár síðan farið var að leggja áherslu á að miðla upplýsingum til kvenna og heilbrigðisfagfólks um hve tíðni hjarta- og æðasjúkdóma er há hjá konum. Mikilvægt er að upplýsa konur um fyrstu einkenni hjarta- og heilaæðasjúkdóma til að geta brugðist skjótt við.  

GoRed átakið er alheimsátak á vegum World Heart Federation og hófst á Íslandi árið 2009. Í ár verða 14.-21. febrúar sérstaklega helgaðir GoRed og er það vel við hæfi, en 14. feb er einmitt Valetnínusardagur og 21. feb konudagurinn.   Markmið GoRed átaksins er að fræða konur um áhættuþætti og einkenni hjarta- og æðasjúkdóma og ýta undir rannsóknir á þessum sjúkómum hjá konum. “GoRed fyrir konur á Íslandi” er samstarfsverkefni Hjartaverndar, Hjartaheilla, Heilaheilla, hjartadeildar Landspítalans og fagdeildar hjartahjúkrunarfræðinga. Verndari átaksins hér á landi er Ingibjörg Pálmadóttir, fyrrum heilbrigðisráðherra. Formaður stjórnar GoRed er Þórdís Jóna Hrafnkelsdóttir sérfræðingur í hjartasjúkdómum. 

Í vikunni munu heilbrigðisstarfsmenn flytja fræðsluerindi á vinnustöðum og hjúkrunarfræðingar verða með upplýsingar í verslunarmiðstöðvum: Miðvikudaginn 17. febrúar milli kl 16 og 19, fimmtudaginn 18. febrúar milli kl 17 og 20 og loks laugardaginn 20. febrúar milli kl 13 og 16. 
 

Í tilefni átaksins eru Landspítalinn við Hringbraut og Aðalbygging Háskóla Íslands eins og undanfarin ár lýst upp í rauðum lit í febrúar. 

Föstudagurinn 19. febrúar verður “Klæðumst rauðu dagur” þar sem landsmenn eru hvattir til að klæðast rauðum fatnaði.  

Hápunktur átaksins verður fræðslu- og skemmtistund sunnudaginn 21. febrúar í Iðnó. Húsið opnar kl. 12.40 með ljúfri tónlist, en dagskráin hefst kl 13.00 og lýkur kl. 15.00. Kynnir dagsins verður Hulda Guðfinna Geirsdóttir. 

Á dagskrá eru meðal annars fræðsluerindi um hjartavænt fæði, um hjartað lífstílinn og hamingjuna og hjartað sem ekki slær í takt. Að auki munu tónlistarmaðurinn Björn Thoroddsen stíga á svið ásamt uppistandaranum Önnu Þóru Björnsdóttur og spunaflokknum Improv Iceland, þannig að búast má við mjög fróðlegri og skemmtilegri dagskrá. Aðgangur er ókeypis á meðan húsrúm leyfir. 

Til mikils er að vinna, því markmið átaksins er að fræða um forvarnir og einkenni hjarta- og æðasjúkdóma en sú þekking getur bjargað mannslífum.