ForsÝ­a arrow FrÚttir arrow Erf­avÝsir- hjartaßfall
Erf­avÝsir- hjartaßfall
Í samvinnuverkefni Hjartaverndar og Íslenskrar erfðargreiningar  þar sem tilurð kransæðastíflu hefur verið rannsökuð með umfangsmikilli erfðafræðirannsókn hefur fyrsti erfðavísir sem tengist hjartaáfalli verið einangraður.  

Erfðavísir sem tengist hjartaáfalli einangraður
Í samvinnuverkefni Hjartaverndar og Íslenskrar erfðargreiningar  þar sem tilurð kransæðastíflu hefur verið rannsökuð með umfangsmikilli erfðafræðirannsókn hefur fyrsti erfðavísir sem tengist hjartaáfalli verið einangraður. Hópurinn sem var skoðaður er fenginn úr rannsóknagögnum Hjartaverndar.  Fyrstu niðurstöður úr rannsókninni sýna fram á erfðavísi sem tengist algengustu gerð hjartaáfalls. Einnig fannst aukin áhætta á heilablóðfalli samfara þessu geni. Niðurstöður úr þessari rannsókn munu birtast í hinu virta vísindatímariti Nature genetics sem er væntanlegt í marsmánuði. Einangrun á þessum erfðavísi er sá fyrsti þar sem sýnt er fram á að tengist algengustu gerð hjartaáfalls.
Erfðarannsóknin sýnir fram á að ákveðið prótein FLAP tengist um það bil tvöfaldri hættu á hjartaáfalli og álíka aukinni hættu á að fá heilablóðfall. Á einfaldan hátt má segja að aukin virkni á þessu próteini FLAP geti valdið bólgum og rofi æða við fituúrfellingum á æðaveggnum. Þessar fituútfellingar kallast æðakölkunarskellur (athersclerotic plaques). Rof á þeim er þekkt algeng orsök kransæðastíflu og heilablóðfalls. Hópur vísindamanna hjá Íslenskri erfðagreiningu og Hjartavernd undir stjórn Önnu Helgadóttur læknis hefur starfað að þessum erfðarannsóknum. Niðurstöður rannsóknarinnar benda til að með því að hemja virkni FLAP-próteinsins sé mögulegt að minnka bólgur í æðum og minnka þar með líkur á hjartaáfalli og heilablóðfalli.
Rannsókn eins og þessi í fyrirbyggjandi læknisfræði hefur það markmið að reyna finna út hvernig draga megi úr hættunni á að fá hjarta- og æðasjúkdóma.

Greinin heitir "The gene encoding 5-lipoxygenase activating protein confers risk of myocardial infarction and stroke"