Forsíða arrow Fréttir arrow Dagur án tóbaks er 31. maí
Dagur án tóbaks er 31. maí
20388_2_preview.jpg

Dagur án tóbaks er haldinn á heimsvísu 31. maí ár hvert. Það er Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) sem heldur daginn og á hverju ári er dagurin tileinkaður ákveðnu þema. Að þessu sinni er dagurinn helgaður banni við auglýsingum, kynningu og kostun á tóbaksvörum.

Í tilefni dagsins verður haldinn morgunverðarfundur um tóbaksvarnir á Grand hóteli, Háteigi A, 4. hæð, og stendur hann frá kl. 8:15 til 10:00. Þar verður Jóni Ármanni Héðinssyni, fyrrverandi alþingismanni, veitt viðurkenning fyrir frumkvæði í baráttunni gegn tóbaki, en hann var flutningsmaður frumvarps um bann við tóbaksauglýsingum sem samþykkt var á Alþingi vorið 1971 og tók gildi í ársbyrjun 1972. Dagskrá fundarins má finna hér

Tóbaksnotkun og reykingar eru eitt helsta heilbrigðisvandamál heimsins í dag og á ári hverju deyja fleiri úr reykingatengdum sjúkdómum en úr alnæmi, malaríu og berklum samanlagt svo ekki sé minnst á hve skert lífsgæði eru oft fylgifiskar tóbaksnotkunar.  Rannsóknir Hjartaverndar hafa sýnt án vafa að reykingar auka dánarlíkur verulega.  Góðu fréttirnar eru hins vegar þær að það er alltaf ávinningur af því að hætta að reykja. Til dæmis bætir 40 ára manneskja 6-7 árum við ævi sína með því að hætta að reykja og sjötug bætir 3-4 árum við sína ævi. Forvarnir hafa mikið að segja og hvetur Hjartavernd alla þá sem reykja eða neyta tóbaks að leita sér aðstoðar við hætta að reykja. Hér á landi hefur orðið mikill árangur af tóbaksvarnastarfi og eru reykingar hér hvað minnstar í Evrópu. Á síðasta ári reyktu daglega um 14% landsmanna á aldrinum 15–89 ára, en hlutfallið var um 30% árið 1991 og hærra áður. Þeir sem hafa stutta skólagöngu að baki reykja mun frekar en þeir sem eru með meiri menntun og þeir sem hafa litlar tekjur reykja frekar en þeir tekjuháu.

 

Dagur án tóbaks var fyrst haldinn á Íslandi árið 1979, þá undir nafninu Reyklausi dagurinn. Hann hefur verið haldinn árlega síðan 1987