Forsíğa arrow Fréttir arrow Alşjóğlegur hjartadagur - Heilsan bır í hjartanu
Alşjóğlegur hjartadagur - Heilsan bır í hjartanu

Alþjóðlegur hjartadagur 29. september 2014
Heilsan býr í hjartanu

Hjartadagshlaupið, sem haldið er í tilefni alþjóðlega hjartadagsins, verður haldið í áttunda sinn sunnudaginn 28. september. Boðið er upp á 5 og 10 kílómetra vegalengdir í hlaupinu en þátttaka í hlaupinu er ókeypis eins og ætíð. Hlaupið hefst klukkan 10 og er ræst frá Kópavogsvelli. Strax í kjölfar hlaupsins fer fram hjartaganga um Kópavogsdal.  

Alþjóðlegur hjartadagur er haldinn 29. september ár hvert en það er Alþjóðahjartasambandið (World Heart Federation) sem hvetur aðildarfélög sín um allan heim til að halda upp á Hjartadaginn. Á Íslandi sameinast Hjartavernd, Hjartaheill, Neistinn og Heilaheill um að halda daginn hátíðlegan. Um alþjóðlegan hjartadag má lesa hér . 

Félögin hafa haldið upp á daginn með hjartadagshlaupinu um árabil í samvinnu við Kópavogsbæ sem hefur boðið þátttakendum í sund að hlaupi loknu. Frjálsíþróttadeild Breiðabliks sér um framkvæmd hlaupsins en hlaupaleiðin liggur um Kársnesið. 

Þema hjartadagsins í ár eru samfélagið og umhverfi einstaklingsins. Heilbrigður lífsstíll er mikilvægasta forvörn gegn hjarta- og æðasjúkdómum. Einstaklingurinn ræður sjálfur mestu um sinn eigin lífsstíl.  Mikilvægt er þó að gera einstaklingnum kleift að haga sínum lífsstíl á sem heilsusamlegastan máta. Umhverfi okkar þar sem við búum, vinnum og iðkum frístundir, getur haft mikil áhrif á getu okkar til að taka réttar ákvarðanir með heilsu okkar í huga.  Á síðustu áratugum hefur margt breyst til batnaðar í samfélagi okkar og umhverfi. Okkur hefur verið gert auðveldara að lifa heilsusamlegu lífi, sé áhugi fyrir hendi. Hjólastígar, göngustígar, almenn útivistarsvæði, takmarkanir á reykingum og ýmislegt fleira hafa skilað sér til þjóðarinnar í bættri heilsu. Sérhver hreyfing er mikilvæg fyrir heilsuna. Ekki þarf alltaf mikið til.  

„Góður daglegur göngutúr á þeim hraða sem hverjum hentar skiptir máli fyrir heilsuna,“ segir Vilmundur Guðnason forstöðulæknir Hjartaverndar. „Lærum að nota það sem í kringum okkur er.“

Kópavogsbær hvetur bæði íbúa bæjarins og nágrannasveitarfélaga til þess að nýta sér fjölmörg útivistarsvæði í bænum, hjóla- og göngustíga. „Útivistarmöguleikar í Kópavogi eru miklir. Hjartahlaupið og hjartagangan Kópavogi er gott tækifæri til að minna á þá,“ segir Ármann Kr. Ólafsson, bæjarstjóri Kópavogsbæjar.

Félögin sem að hlaupinu standa og Kópavogsbær hvetja sem flesta til þess að taka þátt í hlaupinu og göngunni. 

Skráning í Hjartadagshlaupið fer fram á hlaup.is og við stúkuna fyrir hlaup frá klukkan 9 en hlaupið hefst klukkan 10. Vegleg verðlaun verða veitt fyrir efstu sæti. Ekki þarf að skrá sig í gönguna.


Dagskrá sunnudaginn 28. september

  • Hjartadagshlaupið - klukkan 10:00 á Kópavogsvelli. Í boði eru tvær vegalengdir, 5 og 10 km með tímatöku. Vegleg verðlaun eru í boði fyrir efstu sæti, auk útdráttarverðlauna. Skráning er á www.hlaup.is  eða á staðnum, við stúkuna á Kópavogsvelli frá klukkan 09:00.
  • Hjartagangan - sunnudaginn 28. september strax í kjölfar hlaupsins og verður gengið um Kópavogsdal undir leiðsögn garðyrkjustjóra Kópavogsbæjar. Gangan tekur um það bil klukkustund og er ekkert þátttökugjald.
 
Hjartasjúkdómar eru fyrirbyggjanlegir og með því að tileinka sér heilbrigðan lífsstíl má seinka sjúkdómnum og jafnvel koma í veg fyrir ótímabær dauðsföll 

Hreyfðu þig! Hreyfing þarf ekki að vera ekki bundin við íþróttir eða líkamsrækt og getur verið margs konar, eins og við heimilisstörf, garðvinnu eða einfaldlega að fara út og leika við börnin. Settu þér raunhæf markmið, ekki byrja á því að klífa fjall eða hlaupa maraþon, þú byggir upp þrek og þol smám saman. 


Borðaðu hollt! Takmarkaðu neyslu á unnum matvörum sem oft innihalda mikinn sykur, salt og mettað fitu. Gerðu holla matinn spennandi fyrir börnin, berðu fram litríkan mat eins og ávexti og grænmeti og láttu þau aðstoða við matargerðina. Leiddu hugann að skammtastærðum, notaðu minni matardiska og leyfðu grænmetinu og ávöxtunum að taka mesta plássið.


Segðu NEI við tóbaki! Það er mikilvægt að þú bannir tóbaksnotkun á heimili þínu og gættu þannig að heilbrigði fjölskyldu þinnar. Fræddu börnin þín um skaðsemi tóbaks til að hjálpa þeim að velja líf án tóbaks. Ef þér finnst erfitt að hætta að reykja, leitaðu þér hjálpar.