ForsÝ­a arrow FrÚttir arrow Al■jˇ­legur dagur sykursj˙kra
Al■jˇ­legur dagur sykursj˙kra

BARÁTTAN GEGN OFFITU - FORVÖRN GEGN SYKURSÝKI
Skilaboð dagins
Dagskrá í Smáralind laugardaginn 13.nóv kl.11-17
Sykursýki tegund tvö, stundum nefnd lífsháttartengd sykursýki er mjög hættulegur sjúkdómur sem m.a. getur fylgt offitu. Breyttir lífshættir og tímanleg greining getur hinsvegar hægt verulega á framgangi sjúkdómsins - auk þess að minnka mjög hættuna á að fram komi alvarlegir fylgikvillar.
Það sem gerir sykursýki tvö sérstaklega hættulega er það hve væg einkenni sjúkdómsins geta verið. Sjúklingurinn getur verið með sjúkdóminn árum saman án þess að gera sér grein fyrir hvað sé á seyði. Á meðan geta komið fram ýmsir alvarlegir fylgikvillar svo sem augnskemmdir, taugaskemmdir, nýrnabilun og hjarta- og æðasjúkdómar.
Sykursýki tegund tvö er sérstaklega algeng á vesturlöndum og hefur sjúkdómurinn lagt mjög þungar byrðar á heilbrigðiskerfi hins vestræna heims. Ísland er engin undantekning hvað þetta varðar. Allt eru þetta fylgikvillar sem hægt er að komast hjá ef tímanlega eru gerðar viðeigandi ráðstafanir með breyttum lífsháttum og markvissri meðferð.
Það er einfalt að greina sykursýki. Hægt er að fá blóðsykursmælingu hjá flestum heimilislæknum, á heilsuverndarstöðvum og hjá sumum lyfjaverslunum en framkvæmd hennar er einföld og ódýr ef greiða þarf fyrir hana.

Helstu einkenni sykursýki eru:

 • Þorsti
 • Tíð þvaglát
 • Sjóntruflanir
 • Kláði við þvagrás
 • Þreyta


Dagskrá í Smáralind á laugardaginn
Laugardaginn 13.nóvember frá klukkan 11 til 17 munu Samtök Sykursjúkra verða með aðstöðu í Smáralind ásamt samstarfsaðilum sínum, þar sem vakin verður athygli á þeirri gífurlegri aukningu sem orðið hefur á tíðni lífsháttatengdrar sykursýki.
Innflytjendur blóðsykurmæla, Lyra sf, Pharmanor hf og Logaland ehf, bjóða upp á blóðsykurmælingar. Starfsfólk Göngudeildar sykursjúkra á LSH veitir ráðgjöf og kynnir starf deildarinnar. Össur hf veitir ráðgjöf varðandi fótabúnað, en margir sykursjúkir glíma við vandamál vegna æðaskemmda í fótum og Hjartavernd kynnir nýja áhættureiknivél.

 

GÖNGUTÚR TIL SETNINGAR HEIMSMETS
Sunnudaginn 14.nóvember, á alþjóðadegi sykursjúkra, verður svo efnt til gönguferðar til að vekja athygli á gildi hreyfingar og hættunni sem stafar af offitu. Þessi ganga verður farin samtímis um allan heim og er markmiðið að setja heimsmet í fjölda þátttakenda. Lagt verður af stað frá Hátúni 10b kl.10,00. Eftir gönguna verður opið hús á skrifstofu samtakanna og gefst fólki kostur á að skoða aðstöðuna og fá sér kaffisopa.

 • Gera má ráð fyrir að þriðjungur allra heilsufarsvandamála í heiminum séu afleiðing lélegs mataræðis.
 • Áætlað er að á heimsvísu séu um 194 milljónir manna með sykursýki og gert er ráð fyrir að sú tala eigi eftir að hækka í um 330 milljónir fyrir árið 2025.
 • Að minnsta kosti helmingur allra þeirra sem eru með sykursýki í dag vita ekki af sjúkdómnum og þeirri hættu sem hann skapar þeim.
 • Vegna aukinnar offitu hefur tíðni meðgöngusykursýki aukist mjög með tilheyrandi heilsufarslega áhættu fyrir móður og barn.
 • Offita er ein aðalástæðan fyrir sykursýki af tegund 2 og sú sem auðveldast er að hafa áhrif á.
 • Offita er algengasta heilsufarsvandamál barna og unglinga á Vesturlöndum.
 • Tíðni offitu í heiminum eykst nú hröðum skrefum svo líkja má við farsótt.
 • 80% þeirra sem greinast með sykursýki af tegund 2 þjáist af offitu.
 • Ætla má að koma megi í veg fyrir a.m.k. helming nýrra tilfella sykursýki ef tekst að stöðva þyngdaraukningu hjá fullorðnum.
 • Fyrir hvert kíló þyngdaraukningar eykst hættan á að fá sykursýki um 5%.
• Í iðnvæddum samfélögum Vesturlanda hreyfa börn sig um 70% minna nú en þau gerðu fyrir 30 árum.

 

FRÉTTATILKYNNING FRÁ SAMTÖKUM SYKURSJÚKRA/111104