Forsíğa arrow Fréttir arrow 5.000 kransæğavíkkanir
5.000 kransæğavíkkanir

Sá áfangi hefur náðst á Landspítala - háskólasjúkrahúsi (LSH) að fimmþúsundasta kransæðavíkkunin hefur verið framkvæmd á hjartaþræðingardeild við Hringbraut.

Sá áfangi hefur náðst á Landspítala - háskólasjúkrahúsi (LSH) að fimmþúsundasta kransæðavíkkunin var framkvæmd á hjartaþræðingardeild við Hringbraut.

 Aðgerðir sem þessar voru fyrst gerðar hér á landi í maí árið 1987 og það ár fóru fram aðeins 12 víkkanir, 37 árið eftir og síðan hefur þeim fjölgað jafnt og þétt. Á síðasta ári voru þær alls 568 og að sögn Kristjáns Eyjólfssonar, sérfræðings í hjartasjúkdómum, sem stýrir deildinni, stefnir í að um eða yfir 600 kransæðavíkkanir verði framkvæmdar á þessu ári.

Kristján segir að með bættum tækjabúnaði, sem er stöðugt í þróun, hafi geta og afköst deildarinnar aukist. Sá búnaður sem hafi verið notaður fyrstu árin þætti til dæmis ekki fullkominn í dag.

Kransæðavíkkanir, hjartaþræðingar og aðrar æðarannsóknir og -aðgerðir fara fram samtímis á tveimur stofum á deildinni, og hefur svo verið í rúm tvö ár eða síðan nýr og fullkominn tækjabúnaður var tekinn í notkun í september árið 2001. Þá lagði gjafa- og styrktarsjóður Jónínu S. Gísladóttur, ekkju Pálma Jónssonar í Hagkaupum, til 40 milljónir króna til kaupa á búnaðinum, sem kostaði um 100 milljónir.
 
Frá árinu 1987 hefur vel á fimmta þúsund manns farið í þessar víkkanir, sem oft eru gerðar í kjölfar hjartaþræðingar, og í mörgum tilvikum er nú sett stoðnet innan í kransæðar sjúklinganna. Kristján segir að víkkunum sé nú í vaxandi mæli beitt sem meðferð við bráðakransæðastíflu. Með þeirri meðferð megi ýmist koma í veg fyrir eða minnka skemmd í hjartavöðva, sem af kransæðastíflu getur hlotist. Þess má geta að frá árinu 1970 hafa verið framkvæmdar um 21 þúsund hjartaþræðingar hér á landi, þar af nærri 18 þúsund á Landspítalanum við Hringbraut og ríflega 3.000 í Fossvogi árin 1989 til 2001.

                                                                                         Frétt Morgunblaðið, 29.11.03
Nánar um kransæðaútvíkkun